Lev og bo hugmyndafræðin

Rík áhersla á sjálfsákvörðunarrétt og þátttöku íbúa!

Hugmyndafræðin / stefnan:

Á hjúkrunardeildinni Skjólgarði og dvalardeildinni Mjallhvíti  er stuðst við danska hugmyndafræði; Lev og bo. Rík áhersla er lögð á sjálfsákvörðunarrétt og þátttöku íbúa. Markmiðið er að nýta það sem aðstæður leyfa frá sjálfstæðri búsetu og sameina það öryggi hjúkrunar- og dvalarheimilis. Starfsfólk og íbúar vinna saman að því að skapa heimilislegt, hlýlegt og virkt samfélag. Hugmyndafræði Lev og bo kemur m.a. fram í því að þeir íbúar sem mögulega geta sækja  félagsstarf í dagdvöl í Ekru, sjúkraþjálfun og aðra þjónustu utan deildar.

Markvisst hafur verið unnið að innleiðingu hugmyndafræðinnar síðustu ár eftir því sem aðstæður hafa gefið tilefni til með góðum árangri.

Unnið hefur verið að því að skapa heimilislegt og notalegt umhverfi í sameiginlegum rýmum og að íbúar geti gert heimiliseiningar persónulegar með eigin munum sem geyma góðar minningar.

Markmiðið er að sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur íbúa sé virtur, áhersla í umönnun færð frá sjúkleika yfir á vellíðan, vanmætti yfir á styrkleika. Leitast er við að hafa íbúana með í ákvörðunum og lausnum á vandamálum sem snerta daglegt líf þeirra. Lausnir séu sveigjanlegar og breytingum vel tekið.

Mikilvægt er að heimilisfólk geti varðveitt sem flesta þætti úr fyrra hversdagslífi sínu, tekið sé mið af æviferli þeirra og fyrri sögu í daglegu skipulagi. Íbúar eru hvattir til að láta vita af óskum sínum og dagleg rútína miðuð út frá fyrri venjum, löngunum og þörfum s.s. hvenær farið er í bað, hve oft, þátttaka í félagsstarfi, hátta- og fótaferðatími svo eitthvað sé nefnt. Íbúar eru hvattir til að taka eins mikla ábyrgð á lífi sínu eins og þeir treysta sér til með stuðningi starfsfólks. Ákvarðanataka sé eins mikið og mögulegt er í þeirra höndum eða nánustu aðstandenda. Mikilvægt er að móttaka nýrra íbúa sé góð, mikilvægt er að fá góða ævisögu frá íbúum þannig geti þjónustan tekið mið af henni.

Hjolad-ohad-aldri

Íbúar njóti útiveru og sjálfræðis, þeir sem eiga rafskutlur haldi áfram að nýta þær meðan getan leyfir. Íbúar geti sótt þjónustu og viðburði utan heimilis eins og þeir voru vanir. Heimilið á rafknúið þríhjól sem er hluti af stærra verkefni Hjólað óháð aldri sem gerir íbúum kleift að fá vind í vanga.Rafskutlur

Heimilisfólk er hvatt til að taka þátt í heimilishaldi eins og hægt er og hver og einn er tilbúinn til s.s. leggja á borð, taka af borðum, þurrka af o.s.frv.

Starfsfólk starfar á heimili íbúa og klæðist eigin fatnaði í vinnu en ekki einkennisfatnaði. Markmiðið með því er að draga eins og mögulegt er úr stofnanabrag.

Fjölskylda og vinir eru sérstaklega mikilvægir í lífi íbúa þegar og eftir að flutt er á hjúkrunarheimili. Þeir eru ávallt hjartanlega velkomnir í heimsóknir eða til að vera þátttakendur í daglegu lífi íbúans á annan hátt. Leitast er við að koma til móts við að íbúar geti tekið á móti gestum sínum í næði. Ef ekki á eigin herbergi (tvíbýli) þá í matsal  eða í sólstofum.

Velkomið er að nýta aðstöðu til að halda uppá afmæli eða aðra viðburði og gera sér glaðan dag með fjölskyldu og vinum.

Reglulega er íbúaspjall með félagsliða eða öðru starfsfólki þar sem aðbúnaður, matur og annað er rætt. Félagsliði skipuleggur virkni og uppákomur með íbúum. Markmiðið er að hver og einn íbúi njóti félagslegrar samveru að eigin ósk í litlum eða stórum hóp, eftir því sem hentar hverjum og einum.

Íbúar og félagsliði skipuleggja 2-3 viðburði á ári þar sem aðstandendum er sérstaklega boðið. Þorraskemmtun, kaffiboð og jólasamvera. Skipulagðar eru sameiginlegar ferðir 2-3 svar á ári með dagdvöl Ekru, Mjallhvít og Skjólgarði þar sem íbúar taka þátt í skipulagi.