Við innlögn á deild

Þagnarskyldan er mikilvæg. Við biðjum skjólstæðinga okkar og aðstandendur þeirra vinsamlega að ræða ekki um sjúkdóma og meðferð annarra. Allt starfsfólk stofnunarinnar skrifar undir þagnarskyldu á ráðningasamning sínum.

Gott er að undirbúa vel innlögn í hjúkrunarrými. Það er mikið viðbrigði fyrir íbúa að flytjast á hjúkrunarheimili. Við það breytist ýmislegt bæði hvað varðar almennt heimilishald og einnig fjármál einstaklinga. Samtök fyrirtækja í velferðaþjónustu hafa unnið handbók sem var unnin innan Fagráðs hjúkrunarstjórnenda SFV og er hugsuð til að auðvelda nýjum íbúum og ættingjum þeirra að átta sig á hvað sé innifalið í dvalargjaldi sem greitt er fyrir dvölina frá Sjúkratryggingum Íslands og með lögbundinni greiðsluþátttöku íbúa. Hér er tengill á handbókina en ættingjar eru beðnir um að kynna sér efni hennar vel þegar íbúi flyst á Skjólgarð.


Við innlögn á deild:

Er gott að hafa með sér slopp, inniskó, rakáhöld, tannbursta, tannkrem, greiðu og eða aðrar snyrtivörur sem eru nauðsynlegar. Náttföt, nærföt og léttan klæðnað til að vera í á daginn sé viðkomandi ekki rúmfastur. Þegar íbúar flytja inn í hjúkrunarrými er nauðsynlegt að merkja fatnað, veita upplýsingar um hagi íbúa svo sem fjármál, fjölskyldumál og annað er þykir nauðsynlegt.

Lyf
Á meðan sjúklingur er inniliggjandi á hann aðeins að nota lyf í samráði við lækna deildarinnar. Lyf og lyfjakort skal því afhenda lækni eða hjúkrunarfræðingi sem hann fær síðan aftur við brottför svo og ráðleggingar um áframhaldandi meðferð.

Verðmæti
Deildin getur ekki ábyrgst fjármuni né verðmæti sem fólk kemur með. Viðkomandi eru hvattir til að setja verðmæti í geymslu í læstum skáp hjá hjúkrunarfræðingum.

Útskrift
Við útskrift er farið yfir lyf og lyfjakort viðkomandi og athugað hvort viðkomandi þurfi heimahjúkrun eða heimaþjónustu.

Matartímar

  • Morgunmatur       frá kl. 8:30
  • Hádegismatur       kl. 11:30
  • Kaffi                        kl. 14:30
  • Kvöldmatur           kl. 18:00
  • Kvöldkaffi              eftir kl. 20:30 

Reykingar
Sjúklingum sem reykja er vinsamlegast bent á að æskilegt er að draga sem mest úr reykingum og þeim boðin hjálparmeðöl s.s. nikótínplástur og tyggigúmmí á meðan á dvöl stendur.
Heimilisfólki og sjúklingum er heimilt að reykja í bakgarði. Samkvæmt lögum er gestum og starfsfólki með öllu óheimilt að reykja innandyra eða á lóð stofnunarinnar. 

Sameiginlegt rými á hjúkrunar og sjúkradeild. 
Sameiginleg setustofa og borðstofa er nýtt sem aðstaða til þjálfunar, afþreyingar og samveru.  Einnig er salurinn nýttur til helgihalds, hópastarfs tengdu félagsstarfi og fyrir uppákomur af ýmsu tagi, eins og dansleiki, tónlistarflutning og ýmiskonar fundahöld. 

Aðstaða utandyra.
Góð aðstaða er til útiveru á Skjólgarði. Lokaður garður er við vestari enda hússins, önnur útisvæði eru opin. Í garðinum eru bekkir og borð sem nýtt eru á góðviðrisdögum. Heimilisfólk getur farið þar um og notið gróðurs og fallegs útsýnis.

Þjónusta 

Hand- og fótsnyrting
Hafrún Gísladóttir snyrtifræðingur kemur reglulega og býður heimilisfólki uppá snyrtiþjónustu s.s. hand- og fótsnyrtingu sem veitt er á kostnað einstaklingsins.

Hárgreiðsla
Hárgreiðslumeistarar og rakari koma á deildina og snyrta íbúa. Íbúar geta einnig farið á hársnyrtistofur bæjarins óski þeir þess, þá er það oftast í fylgd ættingja. Hársnyrting er á kostnað einstaklingsins

Sjúkraþjálfun/ leikfimi
Tvisvar í vikur býður Einar Smári Þorsteinsson sjúkraþjálfari öllu heimilisfólki upp á leikfimitíma í stofu Skjólgarðs. Leikfimi fer fram einu sinni í viku í Ekrunni og býðst íbúum í Mjallhvít að koma þangað.

Tannlæknaþjónusta
Íbúar greiða sjálfir fyrir alla tannlæknaþjónustu og er íbúum komið til tannlæknis í hefðbundið eftirlit eða viðgerðir eftir þörfum. Mikil áhersla er lögð á að tannhirða sé með sem bestum hætti.

Prestþjónusta
Gunnar Stígur Reynisson, sóknarprestur og María Rut Baldursdóttir, prestur  koma reglulega á hjúkrunar-, sjúkradeild og dvalardeild til að lesa, ræða við íbúa, veita sáluhjálp og fleira. Guðsþjónusta er á deildinni á stórhátíðum auk þess sem sjónvarpstenging við Hafnarkirkju gerir heimilisfólki kleift að horfa á messur, jarðarfarir, tónleika og aðrar uppákomur sem fram fara í kirkjunni. Þessi tenging kom í gagnið haust 2008 og er kærkomin.

Þvottur
Fatnaður heimilisfólks er merktur með númeri einstaklingsins. Allur þvottur stofnunarinnar og heimilisfólks er þveginn í Efnalaug Dóru. Æskilegt er að þvottur heimilisfólks þoli vélarþvott. Ekki er tekin ábyrgð á fötum heimilisfólks. Aðstandendum er velkomið að sjá um einkaþvott íbúa heimilisins. Íbúar eru hvattir til að taka með sín eigin rúmföt við flutning á heimilið með það að markmiði að gera dvölina persónulegri.