Áramótakveðja

11. jan. 2018

UtiveraGleðilegt ár kæru Hornfirðingar og kærar þakkir fyrir árið sem liðið er, megi árið 2018 færa ykkur gleði, gæfu og ný ævintýri.

Starfsemi á árinu
Starfsemin hefur verið í föstum skorðum þetta ár. Reksturinn hefur gengið betur nú en undanfarin ár eftir að gerðir voru nýir samningar í lok árs 2016. Það hefur verið mikill léttir að starfa í betra fjárhagslegu rekstrarumhverfi. Það er þó alveg ljóst að ekki má sofna á verðinum því fjárlög þessa árs fela ekki í sér markverða aukningu og því rekstrarumhverfi erfitt. Verkefnin undanfarin ár hafa verið að aukast samhliða auknum ferðamannastraum á svæðinu. Yfir sumartímann leita fjölmargir ferðamenn á heilsugæsluna ásamt fjölda erlendra starfsmanna en ekki er reiknað með slíkum fjölda í fjármögnun heilsugæslunnar. Einnig hafa slys í sveitarfélaginu verið að aukast þó hægt hafi á aukningunni milli áranna 2016-2017. Fjölgun slysa hefur í för með sér aukið álag á sjúkraflutninga, lækna og hjúkrunarfræðinga og einnig á aðra viðbragðsaðila. Löggæsla í Öræfum hefur aukist undanfarin tvö ár og viðbragsaðilar á Höfn, Öræfum og Kirkjubæjarklaustri finna greininlegan árangur aukinnar löggæslu þar. Áhrifin eru þau að dregið hefur úr fjölgun slysa á því svæði ásamt því að fyrstu bjargir eru fljótari á vettvang. Vonandi er aukin löggæsla í Öræfum komin til að vera. Gott samstarf ríkir á milli viðbragðsaðila í sveitarfélaginu og víðar, það sýndi sig nú rétt fyrir áramót þegar rúta með tæplega 50 ferðamönnum fór út af veginum vestan við Kirkjubæjarklaustur. Viðbragðsaðilar á Hornafirði og úr Öræfum brugðust við kallinu og fór nokkuð fjölmennt lið á Klaustur til aðstoðar. Undanfarin ár hefur mikil áhersla verið lögð á hópslysaæfingar og bar það árangur í umræddu slysi. Allir viðbragðsaðilar á Suðurlandi eiga heiður skilið fyrir fagleg störf í erfiðum aðstæðum þennan örlagaríka dag. 

Nýtt hjúkrunarheimili
Í mörg ár hafa stjórnendur stofnunarinnar, bæjarstjóri og bæjarfulltrúar barist fyrir byggingu hjúkrunarheimilis. Undir lok árs 2017 fengust loksins góðar fréttir af þeim málum. Nú hefur ríkið tekið ákvörðun um að byggja við hjúkrunarheimilið á Hornafirði. Ekki er um fjölgun hjúkrunarrýma að ræða, einungis bættur aðbúnaður þar sem mannréttindi íbúa hjúkrunarheimilisins Skjólgarðs hafa verið brotin um árabil sökum þröngra húsakynna. Þetta eru gríðarlega ánægjulegar fréttir. Framkvæmdin verður unnin í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins en ríkið fjármagnar 85% af byggingarkostnaði og sveitarfélagið 15%, þó mun hlutur sveitarfélagsins verða í við hærri þar sem nýtt líkhús verður hluti af nýbyggingunni og er sá hluti á kostnað sveitarfélagsins. Hafin er vinna við þarfagreiningu og frumathugun líkt og lög kveða á um hjá Framkvæmdasýslunni. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdatíminn verði í heild 3 ár og því stefnt að því að nýtt heimili verði tilbúið í byrjun árs 2021. Við fögnum því að fá loks jákvæðar fréttir af byggingarmálum.

Öldrunarþjónusta
Til öldrunarþjónustu telst Skjólgarður, dvalarheimilið Mjallhvít, dagdvöl aldraðra og heimahjúkrun. Hjúkrunarrýmin eru samtals 24 í dag og dvalarrýmin 6. Lengri bið hefur verið eftir hjúkrunarrýmum undanfarið og því reynt töluvert meira á heimahjúkrun og aðstandendur. Það er við því að búast að biðlisti lengist á næstunni á meðan rýmum fjölgar ekki á sama tíma og öldruðum fjölgar. Sjúkrarými stofnunarinnar hafa verið vel nýtt og margir af þeim einstaklingum hafa verið í biðplássi eftir hjúkrunarrými. Mikilvægt er að viðhalda færni eldra fólks eins lengi og hægt er og er þörf á framtíðarstefnumörkun í málaflokknum. Það er margt hægt að gera og eitt af því var að setja bekki á gönguleiðir á Hornafirði líkt og komið er til framkvæmda. Eins er hægt að setja upp heilsueflingu fyrir eldra fólk líkt og hefur verið gert í öðrum sveitarfélögum s.s. Reykjanesbæ, Hvolsvelli og Hafnafirði. Hornafjörður er heilsueflandi sveitarfélag og ber að horfa til þess í öllu stjórnkerfinu.

Góður stuðningur samfélagsins við stofnunina
Það er ómetanlegt að finna fyrir velvild íbúa í sveitarfélaginu. Fjárframlög til tækjakaupa á heilbrigðisstofnuninni eru í lágmarki og svigrúm til endurnýjunar nánast ekkert. Á undanförnum árum hefur stofnunin notið mikillar velvildar frá líknarfélögum á staðnum auk stuðnings frá fyrirtækjum og einstaklingum og ekki má gleyma Hirðingjunum sem er orðinn mikilvægur bakhjarl stofnunarinnar. Á árinu voru stofnuninni gefin ýmis tæki og búnaður og nú er verið að safna fyrir tveimur nýjum síritum og endurlífgunartæki fyrir heilsugæslnuna. Sú söfnun gengur framar vonum og  er þegar  búið að panta síritana. Fyrir hönd stjórnenda vil ég færa öllum þeim sem hafa styrkt stofnunina með einhverjum hætti kærar þakkir.

Starfsmenn
Það er óhætt að segja að mikið hafi mætt á starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni. Mikið hefur verið um veikindi hjá starfsfólki og því töluvert álag  undanfarin misseri. Við erum heppin með starfsfólk og stjórnendur hafa kappkostað að gera vel við starfsfólkið með m.a. endurmenntun, góðu skipulagi í vaktafyrirkomulagi og lýðræðislegum samskiptum. Stjórnendur í opinberum rekstri hafa lítinn sveigjanleika í að gera vel við starfsfólk enda bundin kjarasamningum og starfsmati. Það er mikil samkeppni um starfsfólk á svæðinu þar sem atvinnutækifærin eru víða. Það verður áskorun að halda í það góða starfsfólk sem hefur kosið að vinna hjá okkur á næstu misserum. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki HSU Hornafirði fyrir frábær störf og vona að nýtt ár verði ár gleði, starfsánægju og að sjálfsögðu fullt áskorana. 

 Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri HSU Hornafirði

20171005_174831Utileikfimi20170619_135601

20171005_180730