Basalt og EFLA verðlaunahafar hönnunarsamkeppni nýs hjúkrunarheimilis

21. jún. 2019

Basalt Arkitektar og EFLA verkfræðistofa hljóta fyrstu verðlaun í opinni samkeppni um hönnun nýs hjúkrunarheimilis á Höfn í Hornafirði. Verðlaunaafhending fór fram 20. júní í Nýheimum á Hornafirði við hátíðlega athöfn.

Verðlaunaafhending í hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili fyrir HSU á Hornafirði fór fram við hátíðlega athöfn í Nýheimum á Hornafirði í gær 20. júní. Basalt Arkitektar og EFLA verkfræðistofa hljóta fyrstu verðlaun í þessarri opnu samkeppni. 

Bæjarstjóri Hornafjarðar, Matthildur Ásmundardóttir opnaði hátíðarhöldin en formaður dómnefndar kynnti síðan verðlaunahafana. Var það í fyrsta sinn á Íslandi, að samkeppni sem slík fer eingöngu fram á rafrænum hætti en sömuleiðis nafnlaus. Það þýðir, að þátttakendur fengu þátttökunúmer sem þeir notuðu til samskipta við dómnefnd og en voru ekki nafngreindir fyrr en undir lok samkeppninnar. Er það kallað TendSign að norrænni fyrirmynd. 

Verðlaunahafar sögðust hlakka til að takast á við þetta skemmtilega verkefni, sem staðsett er á ægifögrum stað við sjóinn í Hornafirði.