Ekki ný mislingasmit í 3 vikur

28. mar. 2019

Í ljósi þess, að ekki hafa ný mislingasmit greinst í 3 vikur hefur Landlæknir ákveðið, að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi á bólusetningum og nota fyrra fyrirkomulag nema sé verið að ferðast með börn til landa þar sem tíðni mislinga sé há.

Vegna mislingabólusetninga

Ekki hafa verið greind fleiri mislingatilfelli hér á landi á undanförnum dögum. Liðnar eru 3 vikur frá síðasta hugsanlega smiti og er því talið að líklegast hafi tekist að stöðva faraldurinn að þessu sinni.

Ákveðið hefur verið á landsvísu að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi á bólusetningum og fara að bólusetja aftur samkvæmt fyrri áætlun, við 18 mánaða og 12 ára aldur. Ekki er talin ástæða nú til að bólusetja börn yngri en 18 mánaða nema við sérstök tilefni, eins og þegar ferðast skal til landa þar sem tíðni mislinga er há.

Óbólusettir einstaklingar á aldrinum 18 mánaða til 49 ára eru áfram hvattir til að láta bólusetja sig, en eins og er mun skortur af bóluefni hamla því að hægt sé að bjóða upp á þessar bólusetningar.

Óbólusettir á leið til landa þar sem tíðni mislinga er há (Rúmenía, Úkraína), ganga fyrir.

Auglýst verður hér á síðunni þegar ný sending af bóluefni kemur og hægt verður að bjóða upp á almennar bólusetningar. En bendum einnig á að það er ekki ólíklegt, að það verði fyrst í haust.