Fræðslumolar um lungnaberkla

31. ágú. 2017

Nýlega greindist einstaklingur í samfélaginu með lungnaberkla. Af því tilefni viljum við koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Lungnaberklar er eitt form af lungnabólgu, það er hægt að meðhöndla með sýklalyfjum, þótt það taki nokkra mánuði í stað daga, eins og við aðrar lungnabólgur. Fólk smitast af berklum við að vera í mjög nánu samneyti við veikan einstakling, helst í lokuðu rými og það í marga klukkutíma í senn, sem sagt ekki bráð smitandi sjúkdómur. Eftir að einstaklingur smitast, líða um 10 vikur áður en hægt er að greina það í viðkomandi, sem gert er með húðprófi (þó ekki sultuplásturinn eins og í gamla daga). Á þessum tímapunkti er viðkomandi með berklasýkingu í dvala í líkamanum, og getur verið það í marga mánuði eða ár, jafnvel lífslangt áður en hún lætur til skarar skríða. Smitaðir einstaklingar smita ekki, ekki fyrr en þeir verða veikir, fá lungnabólgu af berklabakteríunni.

Við munum innkalla þá einstaklinga sem teljast líklegir til að eiga einhverja hættu á að hafa smitast af bakteríunni. Óþarfi er að óska sérstaklega eftir berklaprófi nema ærin ástæða sé fyrir hendi, sem við viljum þá heyra af.

Af hverju er ekki bólusett á Íslandi? Það eru eflaust nokkrir sem hugsa svo, en það hefur aldrei tíðkast. Vandinn með bólusetningarnar er að þær gefa ekki næga vörn, og ef einhver ert bólusettur, getum við ekki séð hvort viðkomandi er smitaður, fyrr en hann veikist, því húðprófið gerir ekki greinamun á smiti og bólusetningu. Kosturinn við að vera óbólusettur, er að smitið greinist strax, viðkomandi fær fyrirbyggjandi meðferð sem þolist yfirleitt mjög vel, og sleppur alveg við sjúkdóminn.

Mikilvægt er að skilja að einungis þeir sem veikir eru, þ.e. eru með lungnabólgu, geta smitað aðra. Þeir sem smitaðir eru, eru einkennalausir og EKKI smitandi. 

Elín Freyja Hauksdóttir, læknir.