Fréttabréf HSU Hornafirði og heimaþjónustudeildar

21. okt. 2019

Frá og með 1. nóvember verður sameiginlegur hádegismatur fyrir eldri borgara og þjónustunotendur dagvist fatlaðra í matsalnum Ekrunnar.

Dagvist fatlaðra hefur verið til húsa í Sjallanum núna um langt skeið. Nú munum við kveðja það húsnæði og færast að Víkurbraut 24, í hvítu byggingunni bak við gamla Krakkakot. Vegna tafa á framkvæmdum á Víkurbraut 24 var ákveðið að fara þessa leið með að sameina þessa starfsemi undir eitt þak þar til húsnæðið að Víkurbraut verður tilbúið.

Dagsdaglega mun starfsemin fara fram í litla hvíta kotinu en einnig dreifast um bæinn. Sem dæmi verður aukin áhersla á hreyfingu og því mun dagsvistin nýta hin ýmsu íþróttamannvirki sveitarfélagsins í því markmiði. Einnig er sú nýbreytni að starfsmenn munu setja áherslu á vinnutengt verkefni.

Í hvíta kotinu er ekki rými til að snæðast og því hafa Félag eldri Hornfirðinga, heimaþjónustudeildin og heilbrigðisstofnunin tekið höndum saman í að finna lausn á málinu og því munu þjónustunotendur Ekrunnar og dagvist fatlaðra snæða saman í hádeginu í Ekru salnum alla virka daga. Mun þetta hefjast föstudaginn 1. nóvember og ætlar Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri að koma og fagna þessum áfanga með okkur þann dag.

Þessi breyting verður þar til að Víkurbraut 24 verður tilbúið en þá mun öll starfsemi dagvist fatlaðra færast þangað inn.

Sunnudagsmatur í Ekrunni í hádeginu.

Það er okkur sönn ánægja að kynna, að frá og með sunnudeginum 3. nóvember næstkomandi verður boðið upp á sunnudagsmat í hádeginu í Ekrunni kl. 12.

Umsjónarmenn sunnudags matsins eru starfsfólk félagsþjónustunnar og er mikil tilhlökkun meðal starfsmanna þar, að fá að taka þátt í þessarri nýjung enda allir meðvitaðir um ákallið sem hefur verið eftir þessarri þjónustu.

Er það einlæg von okkar allra sem að þessu standa, að íbúar sveitarfélagsins taki þessarri nýbreytni með opnum hug og jákvæðni. Það er alltaf gleðiefni að geta hjálpast að í okkar góða samfélagi og standa saman.