Mislingafaraldur, gott að hafa í huga.

8. mar. 2019

Staðfest smit eru á höfuborgarsvæðinu og austurlandi. Því er megin áhersla sóttvarnarlæknis Landlæknisembættisins á, að bólusetja fólk á þeim slóðum sem ekki eru bólusettir.

Í kjölfar fregna í fréttum hefur talsvert af fólki sent inn fyrirspurnir til heilsugæslunnar hér á Höfn síðustu daga um hvort það hafi verið bólusett fyrir mislingum á árum áður. Mikið af þessum upplýsingum liggja í eldri pappírssjúkraskrám og eru ekki aðgengilegar sem stendur. Vegna anna starfsfólks þessa dagana, m.a. í tengslum við mislingafaraldurinn, er ekki hægt að verða almennt við svona fyrirspurnum samdægurs. Móttökuritari mun hins vegar skrá alla, sem þess óska, niður á lista og síðan verður haft samband við viðkomandi þegar búið er að vinna úr fyrirspurninni.

Nokkur atriði sem gott er, að hafa í huga áður en hringt er;

· Sértu fæddur eftir 1985 þá ertu með bólusetningu nema að foreldrar hafi hafnað henni. Ef svo er hafðu samband við heilsugæsluna.

· Sértu fæddur á árunum 1976 – 1985 þá ertu líklega með bólusetningu nema foreldri hafi neitað. Líklegt er þó, að þú hafir bara fengið eina og því þarf að kanna bólusetningarskírteinið. Sértu ekki með það né heldur foreldri þitt hafðu þá samband við heilsugæsluna og láttu fletta þér upp.

· Sértu fæddur á árunum 1970 - 1976 er líklegt að þú hefir fengið mislinga. Ef ekki er líklegt að þú hafir fengið bólusetningu en athuga þarf hvort þær hafir verið tvær. Ef bara ein þá ertu með 93% vörn en tvær gefa 97% vörn. Hafðu samband við heilsugæsluna og þú verður settur á lista fyrir bólusetningu.

· Sértu fæddur fyrir árið 1970 hefurðu líklegast fengið mislinga. Ef ekki skaltu kanna bólusetningarskírteinið þitt. Hafir þú það ekki í þínum fórum hafðu samband við heilsugæsluna.

· Allir fengu bólusetningarskírteini sem oft eru til í fórum foreldra þeirra. Ef bólusetning er skráð í kringum 12 ára aldur er það líklegast mislingabólusetning.

· Hægt er að sjá bólusetningar sem gefnar voru eftir að farið var að skrá bólusetningar í rafrænan bólusetningargrunn, um árið 2000, inn á mínum síðum Heilsuvera.is eða á island.is

Eftirfarandi aðilar eru í forgangi til að fá afgreiðslu heilsugæslunnar;

1. Þeir sem hafa verið í samskiptum við einstakling sem er nú VEIKUR.

2. Og hafa ekki fundið bólusetningarskírteini sín og falla undir flokkana hér að ofan.

3. En hafa ekki fengið mislinga og falla undir flokkana hér að ofan.

Heilsugæslan mun setja inn á heimasíðuna og fésbókina nýjustu upplýsingar jafnóðum. Við hvetjum fólk til, að fylgjast með þar.

Boðið verður upp á bólusetningar fyrir alla þessa aðila á næstu viku og verður það auglýst síðar.