Niðurstöður þjónustukönnunar á HSU Hornafirði.

16. feb. 2018

Í nóvember 2017 var þjónustukönnun lögð fyrir notendur heilbrigðisþjónustu á Hornafirði. Heilt yfir eru niðurstöður jákvæðar og almenn ánægja með þjónustu á heilbrigðisstofnuninni.

Um er að ræða sambærilegar kannanir og voru lagðar fyrir árin 2007, 2011, 2013 og 2015 og var könnunin samin af Landlæknisembættinu en í síðari þremur könnunum höfum við bætt við spurningum sem hafa þótt nauðsynleg viðbót fyrir starfsemi HSU Hornafirði. Niðurstöðurnar eru kynntar þannig að síðustu þrjár kannanir eru bornar saman, þ.e. 2013, 2015 og 2017. Kannanir sem þessar gagnast vel í starfsemi heilbrigðisþjónustunnar og eru niðurstöðurnar nýttar til að bæta starfsemina enn frekar. Almenn ánægja er með þjónustu á heilbrigðisstofnuninni. Á heilsugæslunni má sjá að bið eftir tíma hjá lækni er vel ásættanleg, íbúar upplifa meiri stöðugleika í læknamönnun og langflestir fá úrlausn erindis á heilsugæslunni. Mikil ánægja er með viðmót starfsfólks og þegar spurt er um þjónustuþætti þá er almenn ánægja um þá þætti sem spurt er um.

Á dvalar- og hjúkrunarheimilinu eru niðurstöður svipaðar því sem kom fram árið 2015. Innleidd var hugmyndafræði "Lev og bo" árið 2015 og miðað við svörun íbúa 2017 þá er það nokkurn veginn að takast að koma hugmyndafræðinni í framkvæmd. Það er þó erfitt að búa við þrengslin á Skjólgarði og hefur það líklega áhrif á sumar spurningar þar sem fólk getur ekki gert herbergið alveg að sínu vegna plássleysis. Upplýsingagjöf er að lagast þó eru íbúar og aðstandendur ekki nægilega vel með það á hreinu hvaða þjónusta er í boði á heimilinu. Eins finnst íbúum og aðstandendum þeir ekki hafa mikil áhrif á meðferð, úr því má bæta. Almennt eru íbúar ánægðir með þá umönnun sem þeir fá og viðmót starfsfólks er mjög gott.

Heildarniðurstöður þjónustuskönnunarinnar má lesa hér .