Ný stefna HSU Hornafirði 2018-2023

18. apr. 2018

Samþykkt hefur verið ný stefna fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands Hornafirði. Tekin var ákvörðun um að hefja vinnu við að endurskoða stefnu stofnunarinnar snemma árs 2017 en fyrri stefna gilti frá árinu 2012-2016. 

Ákveðið var að Heilbrigðis- og öldrunarnefnd myndi halda utan um vinnuna með framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Vinna hófst í apríl með vinnufundum með nefndinni, starfsfólki og íbúum á stofnuninni. Farið var yfir gildi, hlutverk og framtíðarsýn á þessum fundu og unnar greiningar á starfseminni. Niðurstöðurnar voru notaðar sem uppbyggingarefni nýrrar stefnu. Drög stefnumótunar voru lögð fram til yfirlestrar hjá nefndum sveitarfélagsins og hjá öldungaráði sveitarfélagsins. Einnig voru drög send til starfsmanna og kynnt íbúum stofnunarinnar til umsagnar.

Í þessari stefnumótun er mótuð framtíðarsýn og gildi stofnunarinnar endurskoðuð. Sett eru fram markmið sem stofnunin mun leggja áherslu á næstu árin og þeim fylgir framsækin sóknaráætlun sem byggir á því góða starfi sem nú er unnið hjá stofnuninni og á þeim markmiðum sem hér eru lögð fram. Þessi stefnumótun byggir ofan á þá stefnu sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár. Hér má lesa stefnu HSU Hornafirði til ársins 2023.

Ég vil þakka öllum sem komu að stefnunni fyrir þeirra framlag.

Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri.