Samvinna viðbragðsaðila og hópslys

1. feb. 2018

Nú um árabil hafa fulltrúar allra viðbragðsaðila á Höfn hist reglulega yfir árið til að ræða mikilvæg málefni sem viðkoma þeirra starfi og öryggi. Þarna sitja fulltrúar frá lögreglu, slökkviliði, heilsugæslu, sjúkraflutningum og björgunarsveit. Markmið fundanna er að vinna sameiginlega að því sem þarf að breyta til að tryggja öryggi viðbragsaðila, ferðalanga og heimamanna. 

 20171005_180730

Ýmsu hefur verið áorkað, til dæmis átti samstarfið stóran þátt í því að tryggja löggæslu í Skaftafelli og nú í fyrsta sinn í sumar, láglendisgæslu björgunarsveita í Skaftafelli. Láglendisgæslan verður með svipuðu sniði og hálendisgæslan og kemur til vegna fjölda útkalla yfir sumartímann sem íþyngt hefur litlum björgunarsveitum eins og Kára í Öræfum. Á þessum fundum kom einnig upp hugmynd um sameiginlega þjálfun viðbragðsaðila sem hefur orðið til þess að boðið er upp á mismundandi uppákomur og námskeið einu sinni í mánuði yfir vetrar mánuðina. Þetta fyrirkomulag hófst haustið 2015 og hefur verið haldið úti síðan. Þar fyrir utan hafa verið haldin sameiginleg námskeið s.s í fyrstu hjálp, talstöðva samskiptum, viðbrögð í hópslysum, aðgerðastjórnun og sálrænni aðstoð. Viðbragðseiningar hafa skipts á að skipuleggja þennan mánaðarlegan hitting sem einnig hefur verið nýttur til fundahalda vegna almannavarnamála.

Fjórða hvert ár er haldin stór flugslysaæfing á vegum ISAVIA. Mikill undirbúningur er í tengslum við þessa æfingu, námskeiðahald og minni æfingar. Mikill metnaður er hjá viðbragðsaðilum vegna æfingarinnar og miklu kostað til svo hún lukkist vel. Þótt flugslys séu sem betur fer fátíð þá er nánast sama viðbragðsáætlun notuð við öll hópslys. Vegna mikillar umferðar rútu- og hópferðabíla um okkar svæði hefur því ávallt verið haldið fram að tímaspursmál er hvenær slíkt slys hendir og því mikilvægt að þjálfa viðbragðið oftar en á fjögurra ára fresti. Niðurstaðan var sú að sett var upp stór rútuslysaæfing vorið 2015 og svo aftur haustið 2017 og fyrirhugað er að festa æfinguna í sessi á fjögurra ára fresti. Því verður alltaf ein stór hópslysaæfing á tveggja ára fresti.

Samvinna við viðbragðsaðila á Suðurlandi
Eins og flestum er kunnugt varð stórt rútuslys rétt vestan við Kirkjubæjarklaustur þann 27. desember 2017 með 47. Margir voru alvarlega slasaðir og er þetta slys það alvarlegasta sem orðið hefur á Íslandi í fjöldamörg ár. Tólf alvarlega slasaðir voru fluttir beint á Landsspítalann með þyrlum og 33 voru fyrst fluttir í fjöldahjálpastöð og þaðan á HSU Selfossi með þyrlu, sjúkrabílum og björgunarsveitabílum.

Allir sem tóku þátt í þessari aðgerð voru sammála um að heimamenn á Kirkjubæjarklaustri og Vík unnu þrekvirki. Þau voru verulega fáliðuð í byrjun, en fljótlega streymdu viðbragðsaðilar að úr heimabyggð sem boðin fengu og unnu sem einn maður. Þeim tókst að hlúa að mikið slösuðu fólki, koma lítið slösuðum í skjól og lyfta rútunni ofan af tveimur einstaklingum sem þar lágu fastir.Töluvert síðar barst liðsauki bæði úr vestri og austri til að létta undir með heimamönnum ásamt því að mikill styrkur barst frá hinum ýmsu einingum almannavarnakerfisins. Allir lögðu sitt af mörkum til að bæta líðan þolendanna í slysinu og létta undir með heimamönnum. Þegar svona slys verða er svo mikilvægt að allir viðbragðsaðilar tali sama tungumál, þekki „leikreglurnar“ og vinni sem einn maður. Eina leiðin til að tryggja að svo verði er að stuðla að góðu samstarfi milli viðbragðseininga og sveitafélaga, halda reglulegar æfingar þar sem svona slys eru sviðsett. Leikreglurnar eru skráðar í viðbragðsáætlunum almannavarna og er eins konar handbók um hvað skal gera og hvernig þegar almannavarna ástand eða hópslys ber að garði. Við á Hornafirði höfum lagt okkar að mörkum til að auðvelda þetta samstarf á milli viðbragðseininga og stefnum á að halda því áfram um ókomna tíð. 

Elín Freyja Hauksdóttir
Framkvæmdastjóri lækninga HSU Hornafirði

20171005_17483120171005_180726